Árið 2024, fimmtudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 111/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Búðavegi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september s.á. um að samþykkja byggingarleyfisumsókn eiganda fiskiðjuvers á Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði, við mörk þeirrar lóðar gegnt lóð kærenda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og vísað til efnislegrar meðferðar hjá byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun yfirvofandi framkvæmda, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 28. september 2023.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 27. september 2023.
Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Á lóð Hafnargötu 36 á Fáskrúðsfirði er starfrækt fiskiðjuver Loðnuvinnslunnar hf. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 7. júní 2021 var lögð fram umsókn um leyfi til að reisa tvær viðbyggingar við iðjuverið að flatarmáli 147,5 m2 og 652,7 m2 í kverk austan frystitækjasalar og norðan við pökkunarsal og starfsmannaaðstöðu. Kom þar fram að bæta ætti við eimsvala norðan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá kælibúnaði til að uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í samræmi við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Að lokinni grenndarkynningu var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 22. júlí 2021 og staðfest í bæjarráði 23. s.m. Við þá afgreiðslu kom fram að hávaði við fasteign kærenda yrði mældur að framkvæmdum loknum til að sannreyna útreikninga um að hljóðstig yrði með framkvæmdunum innan tilskilinna marka.
Framangreind ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði uppkveðnum 11. febrúar 2022 í máli nr. 138/2021 hafnaði ógildingu hennar, m.a. þar sem útreikningar á hljóðvist bentu til þess að þegar framkvæmdir yrðu afstaðnar mundi hávaði frá starfseminni ekki fara yfir þau mörk við fasteign kæranda sem tilgreind væru í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Kærendum var jafnframt bent á að leiddi hin kærða framkvæmd til hávaða umfram leyfileg mörk gætu kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar, sem færi með eftirlit samkvæmt reglugerðinni.
Á fundi Heilbrigðisnefndar Austurlands 19. janúar 2023 var bókað að hávaði mældist yfir viðmiðunarmörkum að næturlagi og var óskað eftir tímasettri úrbótaáætlun frá Loðnuvinnslunni vegna þessa. Var sú áætlun samþykkt á fundi framkvæmdaráðs Heilbrigðiseftirlits Austurlands 10. febrúar s.á. og afgreiðslan staðfest á fundi heilbrigðisnefndar 16. mars s.á. Með bréfi kærenda, dags. 5. júlí s.á., var farið fram á að eftirlitið gripi strax til aðgerða gegn ólögmætri hávaðamengun sem hlytist af starfsemi Loðnuvinnslunnar. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins svaraði kærendum með bréfi, dags. 20. s.m., þar sem fram kom að unnið væri eftir samþykktri úrbótaáætlun og því væru ekki forsendur til að grípa til frekari aðgerða að svo stöddu. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum 19. október 2023 í máli nr. 104/2023 vísaði málinu frá þar sem það væri í höndum heilbrigðisnefndar, en ekki framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins að taka ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða.
Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar 7. mars 2023 samþykkti nefndin umsókn leyfishafa um byggingaráform og byggingarleyfi við Hafnargötu 36 vegna hljóðmanar við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Fól nefndin byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi er öllum tilskildum gögnum hefði verið skilað. Á fundi nefndarinnar 18. apríl s.á. fól nefndin skipulags- og umhverfisfulltrúa að fella byggingarleyfið úr gildi og grenndarkynna umsóknina. Sú grenndarkynning fór fram dagana 28. apríl til 26. maí s.á. og bárust þá athugasemdir frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið á dagskrá nefndarinnar á fundi 30. maí s.á. og var afgreiðslu þess frestað. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 13. júní 2023 var byggingarfulltrúa síðan falið að kalla eftir nánari hönnunargögnum sem sneru að mótvægisaðgerðum varðandi hljóðvist við Hafnargötu 36.
Í framhaldi þessa barst Fjarðabyggð minnisblað frá verkfræðistofu, dags. 21. júní 2023, þar sem fram kom m.a. að með hljóðvegg mætti gera ráð fyrir að hljóðstig lækkaði um 7-9 dB framan við Búðarveg 24 í tveggja metra hæð yfir landi og með honum drægi einnig úr umhverfishávaða. Enn var málið tekið fyrir á fundi 27. s.m. og var þar fjallað um minnisblað verkfræðistofunnar. Var málinu frestað en á fundi nefndarinnar 15. ágúst s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og byggingarfulltrúa falið að svara athugasemd kærenda sem barst við grenndarkynningu og leggja fyrir á næsta fundi. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 29. ágúst 2023 var umsóknin síðan samþykkt og var tekið fram að hún næði til þess að reisa hljóðmön á lóðarmörkum Hafnargötu 36 er hefði þann tilgang að draga úr hljóðmengun frá fiskvinnslu. Hinn 5. september s.á. gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að hin umdeilda framkvæmd hafi átt að fara í deiliskipulagsferli en ekki eingöngu grenndarkynningu. Vísað sé til 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem fram komi að byggingarleyfi sem séu ekki í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar skuli fara í deiliskipulagsferli og að ekki nægi að grenndarkynna slíkar framkvæmdir.
Framkvæmdir varði byggingu á risastórum hljóðvegg sem sé staðsettur nokkrum metrum frá útidyrum kærenda. Um sé að ræða breytingu á byggðamynstri og þeim viðmiðum sem gerist og gangi í þéttbýli á Fáskrúðsfirði, sem og annars staðar. Kærendum sé ekki kunnugt um að slík mannvirki séu sett upp vegna brota á reglugerð um hávaða í andstöðu við vilja þess sem brotið sé gegn án þess að deiliskipulagi sé breytt. Hljóðveggur sá sem um ræði myndi ekki einungis breyta útsýni og nýtingu á eign kærenda heldur myndi hann, ásamt því fordæmi sem hlytist af byggingu hans, breyta grundvallarbyggðarmynstri Fáskrúðsfjarðar á þeim stöðum þar sem íbúðarhúsnæði sé nálægt atvinnustarfsemi.
Málsrök Fjarðabyggðar: Af hálfu Fjarðabyggðar er bent á að málsmeðferð sveitarfélagsins hvíli á 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu hafi verið farið yfir innkomnar athugasemdir og afstaða tekin til byggingarleyfisumsóknar. Umhverfis- og skipulagsnefnd hafi tekið ákvörðun um að samþykkja byggingaráform og falið byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar öllum tilskildum gögnum hefði verið skilað. Ekki sé fallist á að um risastóran hljóðvegg sé að ræða. Hæð og umfang veggjarins sé ekki frábrugðið því sem tíðkist við iðnaðarlóðir. Veggurinn sé ekki hár, en hæð hans sé greinilega ákveðin með tilliti til hljóðtæknilegra sjónarmiða og þess að hæðarkóti bygginga við Hafnargötu 36 sé lægri en Búðavegar sem er fyrir ofan.
Því sé hafnað að samþykkt framkvæmdanna feli í sér breytingar á byggðamynstri og þeim viðmiðum sem gangi og gerist í þéttbýli á Fáskrúðsfirði sem og annars staðar. Þá sé því hafnað að um fordæmisgefandi framkvæmd sé að ræða sem muni breyta grundvallarbyggðamynstri Fáskrúðsfjarðar. Umsókn leyfishafa megi rekja til sérstakra og afmarkaðra hljóðvistarlegra aðstæðna vegna staðsetningar eimsvala við Hafnargötu 36 og legu Búðavegar þar fyrir ofan. Þá sé Búðavegur á mörkum tveggja landnotkunarsvæða samkvæmt gildandi aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Leyfið hafi því ekki sérstaka fordæmisþýðingu.
Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærendur virðist freista þess að ná fram niðurstöðu í málinu sem hafi ekkert með bætta hljóðvist á svæðinu að gera. Því sé mótmælt að umrædd framkvæmd sé við lóðarmörk Búðavegar 24 og Hafnargötu 36. Hin umdeilda hljóðmön sé inni á lóð Hafnargötu 36 og sé 1,8 m frá lóðarmörkum. Þá liggi umferðargata í eigu sveitarfélagsins á milli lóðanna, sú gata sé 6,8 m breið og sé íbúðarhús kærenda 1,4 m frá veginum. Samtals séu því um 10 m á milli íbúðarhúss kærenda og hljóðmanar leyfishafa. Að lokum megi benda á að gengið sé inn í húsið að Búðavegi 24 að ofanverðu. Um sé að ræða hljóðmön/skjólvegg sem sé 30 cm minni en almennt sé heimilt án byggingarleyfis samkvæmt byggingarreglugerð.
Bygging hljóðveggjarins sé í beinum tengslum við starfsemi lóðarhafa og samræmist ákvæðum aðalskipulags Fáskrúðsfjarðar, en þau mæli ekki gegn því að settar séu upp girðingar og/eða hljóðmanir nærri lóðarmörkum á iðnaðarsvæðum. Slíkt sé ekki óalgengt og jafnvel æskilegt m.t.t. slysahættu. Samræmist það auk þess ákvæðum aðalskipulags að frágangur sé vandaður, en ljóst sé að hljóðmönin hafi bæði þýðingu á umhverfisþætti vegna hljóðs og útsýnis inn á iðnaðarsvæðið. Framkvæmdin sé að fullu leyti í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í skilningi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og því engin þörf á deiliskipulagsgerð vegna hennar. Hún muni auk þess bæta hljóðvist á svæðinu og ekki skerða grenndarhagsmuni umfram það sem almennt megi gera ráð fyrir í þéttbýli, þar sem íbúðarhús standi nærri hafnar- og iðnaðarsvæði. Þar beri að hafa í huga að hæðarkóti íbúðarhúss kærenda sé hærri en umferðargötunnar og því takmarki hljóðveggur að litlu leyti útsýni kærenda. Þá sé á engan hátt sýnt fram á með hvaða hætti hljóðveggurinn breyti nýtingu á eign kærenda.
Umrædd hljóðmön sé í samræmi við útgefið byggingarleyfi og samþykkta úrbótaáætlun Heilbrigðiseftirlits Austurlands um að draga úr hávaða frá starfsemi fiskiðjuversins. Hafi því legið fyrir í langan tíma að ráðist yrði í framkvæmdina. Fulltrúar leyfishafa hafi látið kærendur vita af framkvæmdunum og farið þess á leit við þá að þeir fjarlægðu bíla sína svo unnt væri að hefja jarðvinnu. Kærendur hafi ekki orðið við þeim umleitunum og gert allt sem í þeirra valdi stæði til að valda usla á verkstað.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi að loknum framkvæmdum bent á að hinn umdeildi veggur mælist 181 cm yfir vegi, en í fylgigögnum grenndarkynningar hafi verið tilgreint að vegghæð skyldi vera 150 cm yfir vegi.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi sem heimilar að reist verði hljóðmön/-veggur við Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Leyfishafi starfrækir þar fiskiðjuver. Hið umdeilda leyfi er þáttur í úrbótaáætlun leyfishafa til að bregðast við hljóðmælingum sem sýnt hafa að hljóðstig vegna starfsemi leyfishafa hafi verið yfir leyfilegum mörkum.
Kærendur eru eigendur Búðavegar 24. Samkvæmt umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi er fyrirhugað að byggja „hljóðskerm á lóðamörkum Hafnargötu 36 við Búðaveg.“ Stendur fasteign kærenda við Búðaveg gegnt hinum umdeilda veggi og eiga kærendur því lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls með vísan til grenndar.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skv. 2. mgr. 9. gr. laganna veitir byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr., vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er byggingarleyfi skv. 1. mgr.
Í 7. gr. mannvirkjalaga er fjallað um byggingarnefndir. Þar kemur fram í 1. mgr. að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Þá segir í 2. mgr. 7. gr. að sveitarstjórn sé heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laganna skal slík samþykkt lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Fjarðabyggð hefur sett sér samþykkt um byggingarnefnd í Fjarðabyggð nr. 1060/2022, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 16. september 2022. Tilvitnuð samþykkt var staðfest af ráðherra 31. ágúst s.á. Sú ábending er gerð að í rafrænu gagnasafni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er þó enn vísað til samþykktar Fjarðabyggðar, sama efnis, nr. 820/2013, sem felld var úr gildi með hinni nýju samþykkt.
Í 2. gr. samþykktar nr. 1060/2022 kemur fram að skilyrði byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, samkvæmt III. kafla laga um mannvirki, sé að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi samþykkt útgáfuna, en nefndin annist verkefni byggingarnefndar. Í 1. mgr. 3. gr. segir að byggingarfulltrúi skuli hafa samráð við umhverfis- og skipulagsnefnd um hvert það mál sem hann telur að varði verksvið nefndarinnar. Í 2. mgr. 3. gr. er mælt fyrir um að byggingarfulltrúi skuli leita samþykkis umhverfis- og skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi er veitt, varði breyting á mannvirki útlit þess og form, nema breyting sé óveruleg, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Líkt og rakið er í málavaxtakafla samþykkti umhverfis- og skipulagsnefnd hina kærðu byggingarleyfisumsókn á fundi sínum 29. ágúst 2023 og gaf byggingarfulltrúi út leyfi 5. september s.á. Var hin formlega málsmeðferð sveitarfélagsins því í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 og samþykkt nr. 1060/2022.
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Undantekningu frá þessari meginreglu má finna í 1. mgr. 44. gr. laganna, en þar kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir megi veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.
Samkvæmt skipulagsuppdrætti 7: Fáskrúðsfjörður í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2020–2040 er Hafnargata 36 á athafnasvæði, AT-402, en fasteign kærenda er á miðsvæði, M-400. Ekki eru í gildi deiliskipulagsáætlanir fyrir umrædd svæði. Í kafla 8.1.2 í greinargerð aðalskipulagsins eru almennir skilmálar fyrir athafnasvæði raktir, en þar segir:
Athafnasvæði eru ætluð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengun svo sem léttan iðnað, hreinleg verkstæði, bílasölur og umboðs- og heildverslanir. Einnig atvinnustarfsemi sem þarfnast mikils rýmis, t.d. vinnusvæði utandyra á lóðum eða starfsemi sem hefur í för með sér þungaflutninga, svo sem vörugeymslur og matvælaiðnaður.
Á athafnasvæðum er lögð áhersla á góða ásýnd og vandaðan frágang, sérstaklega þar sem önnur nálæg landnotkun gefur tilefni til, s.s. íbúðarbyggð, miðsvæði, þjónusta og opin svæði. Gert er ráð fyrir því að hluti starfsemi á athafnasvæðum feli í sér sölu og afgreiðslu til almennings, líkt og gerist á svæðum fyrir verslun og þjónustu.
Þessu til viðbótar inniheldur aðalskipulagið sérskilmála fyrir athafnasvæðið AT-402, Athafnasvæði við Hafnargötu, en þar kemur fram: „Snyrtileg athafnastarfsemi í bland við verslun og þjónustu með mögulegum breytingum og viðbótum í samræmi við núverandi götumynd og yfirbragð á nálægum svæðum.“
Ekki er sérstaklega tekin afstaða til þess í aðalskipulaginu hvort hljóðmanir séu heimilar eða æskilegar á mörkum athafnasvæða og annarra svæða, t.a.m. miðsvæða. Helgast það af hlutverki aðalskipulags, en þar á að koma fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu, sbr. 1. tölul. 2. gr. og 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 123/2010. Í fyrri efnisgrein almennra skilmála fyrir athafnasvæði, sem er samhljóða skilgreiningu athafnasvæðis í e-lið 2. mgr. gr. 6.2. skipulagsreglugerðar, er þó tekið fram að matvælaiðnaður sé heimilaður. Í seinni efnisgreininni er sérstök áhersla lögð á vandaðan frágang þar sem önnur nálæg landnotkun gefi tilefni til og er þar m.a. vísað til miðsvæða. Telja verður að sveitarfélög hafi nokkuð víðtækt svigrúm við mat á hvernig þetta markmið er útfært og verður því ekki litið svo á að farið hafi verið út fyrir það svigrúm við veitingu hins kærða leyfis. Var hið umdeilda byggingarleyfi því ekki í andstöðu við ákvæði Aðalskipulags Fjarðabyggðar 2020–2040. Þá verður hvorki séð að hið kærða leyfi hafi farið gegn landnotkun né að það hafi áhrif á þéttleika byggðar.
Í skipulagslögum, sbr. 6. tölul. 2. gr., er byggðamynstur skilgreint sem lögun og yfirbragð byggðar, svo sem hæð og þéttleiki. Hugtakið er skilgreint með nánari hætti í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð sem „[l]ögun og yfirbragð byggðar þar með talið fyrirkomulag byggðar og landnotkunar, svo sem hæð og þéttleiki, tegund landnotkunar, gatnakerfi, gerð og uppröðun bygginga“. Fjallað er um byggðamynstur innan sveitarfélagsins í kafla 3.2 í aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Í kaflanum eru m.a. sett fram markmið sem miða að því að styrkja miðbæi en þar er ekkert að finna sem mælir gegn hinu kærða byggingarleyfi. Verður samkvæmt öllu framangreindu litið svo á að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við aðalskipulag, landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og því hafi verið heimilt að grenndarkynna það.
Að lokum verður að líta til þess að hin kærða ákvörðun miðar að því að draga úr hávaða. Að mati nefndarinnar hafa stjórnvöld nokkuð svigrúm við mat á því hvaða leið er best fær til að ná því markmiði. Ekki verður litið svo á að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið gengið lengra en tilefni var til í því skyni að draga úr hávaða er stafar frá starfsemi leyfishafa, sbr. nánar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með hliðsjón af framangreindu verður talið að engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.
Það skal upplýst að lokum að kærendur í máli þessu gerðu kröfu um endurupptöku úrskurðarmáls nr. 104/2023, sem varðaði synjun um beitingu þvingunarúrræða, þar sem þeir álitu að ekki hefði verið tekin afstaða til úrbótaáætlunar vegna hljóðmengunar. Þar sem mál þetta varðar leyfi sem grundvallast á úrbótaáætluninni stóð til að taka afstöðu til þess erindis samhliða því að skorið væri úr ágreiningi þessa kærumáls. Í samráði við lögmann kærenda var því þó frestað að taka afstöðu til erindisins uns tekin yrði ný ákvörðun sama efnis og var kærð í máli nr. 104/2023, sem sætt gæti kæru til nefndarinnar. Sú ákvörðun, þegar hún lá fyrir 1. febrúar 2024, var þó ekki borin undir nefndina. Þá var krafa um endurupptöku máls nr. 104/2023 afturkölluð með bréfi, dags. 13. mars 2024. Af þessum ástæðum hefur meðferð þessa máls dregist nokkuð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.